Dómsmálaráðherra segir afstöðu þings og almennings til máls ríkislögreglustjóra skýra, hún vinni málið eins hratt og hún geti.
Forsætisráðherra segir erfitt fyrir ríkisstjórnina að stíga með beinum hætti inn í mál Norðuráls. Gert er ráð fyrir að viðgerð á álverinu á Grundartanga taki um ár.
Björgunarsveitarfólk sem selur neyðarkallinn fær niðrandi athugasemdir um húðlit hans. Neyðarkallinn í ár er straumvatnsbjörgunarsveitarmaður, til minningar um björgunarsveitarmann sem lést við æfingar í fyrra. Hann var ættleiddur frá Indlandi.
Í nýju frumvarpi dómsmálaráðherra um brottfararstöð fyrir útlendinga er meðal annars kveðið á um valdheimildir starfsfólks, sem í frumvarpsdrögum hétu fangaverðir.
Sprengingar heyrðust í höfuðborg Súdans í morgun á yfirráðasvæði stjórnarhersins. Líklega er RSF - uppreisnarherinn að gera þar árásir, þrátt fyrir að hafa samþykkt tillögur milligöngumanna um vopnahlé í gær.
Ný brú verður steypt yfir Breiðholtsbraut um helgina og lokað fyrir umferð. Vegagerðin hefur áhyggjur af umferð flutningabíla með háfermi undir brúna.
Breið samstaða hefur myndast á norska Stórþinginu um að Norðmenn noti olíusjóðinn til að tryggja risalán til Úkraínu. Evrópusambandið hefur verið með svona lán í undirbúningi, en hefur ekki náð samstöðu aðildarríkja um áformin.
Dagur gegn einelti er á morgun. Í tilefni þess var frumflutt lag í dag sem hvetur til samstöðu gegn einelti. Þolendur eineltis segja tilfinninguna vonda.