Eldgos hófst á Reykjanesskaga við Grindavík á tíunda tímanum í morgun. Kvika kemur upp í tveimur sprungum og gýs innan við varnargarð, um hálfan kílómetra frá nyrsta húsi bæjarins. Lengri sprungan er um 700 metrar og hefur lengst til suðurs í átt að Grindavík. Gosið er minna enn fyrri gos en óvíst hvernig það þróast. Stór hluti kvikunnar sem hefur safnast upp frá síðasta gosi er ekki kominn upp.
Björgunarsveitarmönnum var ógnað með byssu í morgun þegar Grindavíkurbær var rýmdur vegna yfirvofandi eldgoss. Einn var handtekinn.
Jarðfræðingur segir Grindavík mögulega í hættu ef gosið heldur áfram að teygja sig til suðurs.
Innviðaráðherra segir almannavarnir vinna að undirbúningi á hraunkælingu og uppbyggingu varnargarða vegna eldgossins. Hann biður fólk að halda ró sinni og fara að tilmælum lögreglu.
Vegagerðin skoðar á næstu dögum til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að koma í veg fyrir grjóthrun úr Steinafjalli undir Eyjafjöllum. Banaslys varð þar í gær þegar grjóthnullungur lenti á bíl á Suðurlandsvegi.
Helsta ógnin við íslenskt hagkerfi stafar af viðskiptastríðum á alþjóðamörkuðum. Seðlabankastjóri segir að áhrifin gætu orðið svipuð og af covid.