Meirihlutinn í borginni sprakk í gærkvöld þegar borgarstjóri sleit samstarfinu. Oddvitar Framsóknar, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Flokks fólksins eru í viðræðum um myndun nýs meirihluta.
Formaður Framsóknarflokksins segist hafa fullan skilning á því að flokkssystkin hans hafi sprengt meirihlutasamstarfið í Reykjavík, það hafi átt sér talsverðan aðdraganda. Formaður Samfylkingarinnar vill ekki tjá sig um stöðuna.
Dregið hefur verulega úr smithættu fuglainflúensu í ljósi færri tilkynninga um dauða fugla. Öll sýni sem greind hafa verið undanfarnar tvær vikur reyndust neikvæð.
Donald Trump er þriðji Bandaríkjaforsetinn sem viðrar þá hugmynd að Bandaríkin kaupi Grænland. Prófessor í sagnfræði segir við þó lifa á öðrum tímum nú þar sem ríki geti ekki bara farið um heiminn og hirt upp lönd sem þau vilja.
Fyrri undanúrslit Söngvakeppninnar eru í kvöld. Þar keppa fyrri fimm lögin og þrjú komast áfram í úrslit. Símakosning almennings ræður úrslitum.
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir varð í 29. sæti í bruni kvenna á heimsmeistaramótinu í alpagreinum í Austurríki í morgun. Það er næstbesti árangur íslenskrar konu í bruni frá upphafi.