Fulltrúar Úkraínu verða að taka þátt í friðarviðræðum, segir forsætisráðherra sem fer til Kænugarðs í byrjun næstu viku. Ráðherrar frá Rússlandi og Bandaríkjunum komu saman til friðarviðræðna í morgun, í fyrsta sinn frá því innrás Rússa hófst.
Framkvæmdastjóri Umbru - rekstrarfélags Stjórnarráðsins segist engar upplýsingar hafa haft um brot gegn sínu ræstingafólki þegar ákveðið var að framlengja samning við ræstingafyrirtæki tímabundið.
Sumir skólar hafa ráðið öryggisverði til starfa vegna ofbeldis nemenda. Formaður Skólastjórafélags Íslands segir kennara óttast að stíga inn í aðstæður þar sem nemendur beita ofbeldi.
Þungatakmarkanir vegna bikblæðinga á vegum á Vesturlandi auka flutningskostnað fiskeldisfyrirtækja um allt að þriðjung, segir framkvæmdastjóri Arctic Fish. Þær lengja líka vinnudaginn hjá bílstjórum sem þurfa að aka malarvegi í sveitum til að komast leiðar sinnar.
Rúmlega sjötíu fengu matareitrun á þorrablóti í Brúarási í Jökulsárhlíð um helgina. Forstjóri heilbrigðiseftirlits Austurlands segir ekkert benda til þess að aðbúnaður hafi verið ófullnægjandi.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur samið við Knattspyrnufélagið Víking í Reykjavík. Valur samþykkti tvö tilboð í Gylfa seint í gærkvöldi, frá Víkingi og Breiðabliki. Síðarnefnda liðið dró sig svo úr kapphlaupinu um miðjumanninn.