Yfir átta hundruð fórust og þrjú þúsund manns slösuðust í jarðskjálfta sem reið yfir Afganistan í nótt. Skjálftinn er einn sá stærsti sem orðið hefur þar í landi.
Breytingar á örorku- og endurhæfingarkerfinu sem snerta hátt í 30 þúsund manns taka gildi í dag. Flestir fá hærri greiðslur í nýja kerfinu sem á að vera einfaldara en það gamla.
Þúsundir evrópskra hermanna gætu verið sendir til Úkraínu í friðargæslu, samkvæmt áætlunum sem eru nokkuð langt komnar. Stefnt er á að ræða þær á leiðtogafundi í París í vikunni.
Geislafræðingar á Landspítalanum gagnrýna að engar tillögur séu um bætt kjör og vinnuaðstæður í tillögum spretthóps heilbrigðisráðherra til að bregðast við mönnunarvanda. Þeim finnst ekki á sig hlustað.
Stjórnmálafræðiprófessor býst við því að afleiðing þess að málþóf um veiðigjöld var stöðvað á Alþingi í sumar - setji svip sinn á upphaf þingstarfa í næstu viku.
Formaður atvinnuveganefndar Alþingis segir að endurskoða þurfi reglur sem gilda um afþreyingu á borð við íshellaferðir. Ferðaþjónustufyrirtæki hafa farið með hópa í íshellaferðir í allt sumar þótt þær séu taldar hættulegar samkvæmt áhættumati.
Icelandair hóf í morgun áætlunarflug til Hornafjarðar.
Körfuknattleikssamband Íslands ætlar að senda formlega kvörtun vegna ákvörðunar dómara í lok leiksins gegn Póllandi á Evrópumótinu í gærkvöld. Íslenska liðið taldi sig verulegu ranglæti beitt.