Dómsmálaráðherra tekur fregnir af gagnastuldi frá sérstökum saksóknara alvarlega. Þetta var rætt á Alþingi í morgun. Meðal gagna sem stolið var eru upptökur af símtölum vegna rannsókna embættisins. Þar á meðal upptökur úr síma Þorvalds Lúðvíks Sigurjónssonar, bankamanns, sem vill að dómsmálaráðherra rannsaki störf embættisins.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt fram tillögur um tolla á bandarískar vörur að andvirði um níutíu og fimm milljarða evra, ef ekki tekst að semja við stjórnvöld í Washington fyrir mitt sumar. Bandaríkjaforseti kynnir í dag nýjan viðskiptasamning við Breta.
Áttatíu ár eru frá sigri bandamanna á nasistum í seinni heimstyrjöld. Þess er minnst víða í Evrópu í dag. Úkraínuforseti segir nöturlegt að Rússar, sem fremja voðaverk í Úkraínu, minnist grimmdarverka nasista. Með hernaði sínum endurtaki Rússar söguna.
Auglýsingaherferð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi virðist ekki hafa haft tilætluð áhrif miðað við nýjustu könnun Maskínu. Stuðningur við frumvarp um hækkun veiðigjalda hefur aukist.
Loftslagsmál skipta landsmenn minna máli en áður, samkvæmt nýrri könnun um sjálfbæra þróun.
Nýstofnuð umhverfisverndarsamtök á Vesturlandi segja að erlendir fjárfestar nýti sér veika stjórnsýslu hér á landi. Samtökin vilja skapa umræðu um áhrif vindorkuvera.
Íslenska karlalandsliðið í handbolta tryggði sér sigur í undanriðli Evrópumótsins í gær. Liðið á þó einn leik eftir í riðlinum.