Lögregla vill ekki tjá sig um rannsókn á frelsissviptingu og líkamsárás í heimahúsi í Reykholti í Biskpustungum. Maðurinn sem ráðist var á er með maltneskt ríkisfang. Hann var þvingaður úr landi í apríl en er kominn aftur.
Um þúsund mótmælendur eru enn fyrir utan þinghús Georgíu til að mótmæla frumvarpi að nýjum fjölmiðlalögum. Búist er við að þingið afgreiði frumvarpið í dag.
Landris heldur áfram með sama hraða við Svartsengi og líkur eru á að eldgos eða kvikuhlaup verði á hverri stundu. Sólstormur truflaði mælingar á landrisi um helgina þannig að gögn bentu til þess að hægt hefði á landrisi.
Afgreiða á útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra áður en Alþingi lýkur störfum í næsta mánuði. Yfir áttatíu stjórnarmál bíða afgreiðslu Alþingis.
Halla Tómasdóttir rúmlega tvöfaldar fylgi sitt í nýjustu könnun Prósents fyrir forsetakosningarnar, en þau sem mælst efst tapa öll fylgi. Kosningapróf RÚV er komið í loftið.
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins segir fá lönd skilja betur eðli bandalagsins en Ísland vegna legu landsins í Norður-Atlantshafi. Hann þakkar Íslendingum fyrir framlag þeirra til heimsfriðar í þau 75 ár sem bandalagið hefur starfað.
Starfsmenn á dekkjaverkstæðum hafa haft í nógu að snúast undanfarnar vikur. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út að frá og með deginum í dag megi ökumenn á nagladekkjum búast við sektum.