Forstjóri Brims gagnrýnir boðaðar breytingar á veiðigjaldi. Þær séu bæði óskynsamlegar og hafi neikvæð áhrif á atvinnulíf á landsbyggðinni.
Stjórnarandstaðan boðar harða andstöðu við veiðigjaldafrumvarpið á þingi. Flokkarnir óttast sérstaklega afleiðingar þess fyrir landsbyggðina.
Grænlandsheimsókn bandarískra ráðamanna í vikunni verður smærri í sniðum en áformað var, því fagnar utanríkisráðherra Danmerkur.
Báðir áttu sök þegar flutningaskipið Longdawn sigldi á smábátinn Höddu út af Garðskaga í maí í fyrra. Flutningaskipið hélt för sinni áfram eftir áreksturinn, en skipverja Höddu var bjargað í annan smábát.
Minnst tuttugu og fjórir hafa látist í mestu gróðureldum í sögu Suður-Kóreu. Tuttugu og þrjú þúsund manns í suðausturhluta landsins hafa flúið heimili sín.
Dómsmálaráðherra vill aðgerðir til að fjölga lögreglunemum samhliða því að fjölga lögreglumönnum um fimmtíu. Fleiri lögreglumenn þurfi til að takast á við skipulagða brotastarfsemi og gengi.
Barkarbjöllur fundust í fyrsta sinn á hér á landi síðasta sumar en þessi vágestur getur farið illa með tré og heilu skógana. Bjallan borar sig inn í börkinn til að verpa og lirfurnar grafa göng. Skordýrafræðingur hjá Landi og skógi segir mikilvægt að bann við að flytja inn timbur með berki sé virt.
Ný reglugerð alþjóða frjálsíþróttasambandsins kveður á um að konur þurfi að sanna kyn sitt til að mega keppa á mótum þess.