Hungur í sinni verstu mynd er að breiðast út á Gaza, samkvæmt alþjóðlegum samráðshópi sem skrásetur hungur í heiminum. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna líkir stöðunni við hungur í Eþíópíu og Bíafra á síðustu öld.
Færeyjar ætla að taka þátt í refsiaðgerðum Evrópusambandsins gegn rússneskum útgerðarfélögum. Ákvörðunin markar stefnubreytingu því ríkin hafa átt áratugalangt samstarf í sjávarútvegi.
Íbúar í nágrenni Seljakirkju í Breiðholti kvarta sáran yfir bifreið sem er full af bensínbrúsum og stendur á bílastæði við kirkjuna. Sami bíll sást á öryggismyndavélum flutningafyrirtækisins Fraktlausna, þegar hundruðum lítra af díselolíu var stolið á föstudag.
Rússlandsher gerði árásir á fangelsi og fæðingarspítala í Úkraínu í nótt. Herinn hefur drepið tuttugu og þrjá almenna borgara síðasta sólarhring.
Áætlað er að það kosti um 850 milljónir að byggja nýjan grunnskóla á Þórshöfn. Mygla greindist í húsnæði skólans í vor. Sveitarstjóri segir þetta áfall fyrir nemendur og kennara.
Veðurhorfur í Vestmannaeyjum yfir þjóðhátíð eru fremur slæmar og búist er við talsverðri rigningu um helgina. Formaður þjóðhátíðarnefndar segir viðeigandi ráðstafanir hafa verið gerðar og á von á góðri hátíð.
Hlutabréfaverð í danska lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk hefur fallið um ríflega tuttugu prósent í morgun. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að sala á vinsælustu vöru þess, þyngdarstjórnunarlyfinu Ozempic, verði minni en áður var spáð.
Kartöfluuppskeran fer vel af stað og forstjóri Sölufélags garðyrkjumanna segir útlitið gott fyrir haustið.
Lundi er talinn hafa numið land í Hrísey. Heimamenn telja að minnst tvö pör hafi orpið í grjóturðum á eyjunni.