Móðir sem er ákærð fyrir að bana sex ára syni sínum í Kópavogi í febrúar hefur einnig verið ákærð fyrir tilraun til að bana eldri syni sínum. Gæsluvarðhald yfir henni var framlengt í gær.
Aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að þrátt fyrir minnkandi verðbólgu sé veruleg óvissa um hvort Seðlabankinn lækkar vexti í næsta mánuði. Verðbólga hefur ekki verið minni frá því í janúar 2022.
Íslenski náttúruverndarsjóðurinn telur frumvarp matvælaráðherra um lagareldi vinna gegn yfirlýstum markmiðum um aukna dýravelferð og náttúruvernd. Þetta séu svik. við áform sem voru kynnt þegar frumvarpið fór í samráðsferli.
Karl og kona eru í haldi lögreglu í Svíþjóð vegna gruns um að hafa ráðið tveimur börnum bana í Södertälje. Þau eru forráðamenn barnanna.
Formaður neytendasamtakanna segir að færa þurfi ábyrgð frá þeim sem taka smálán - yfir á fyrirtækin. Hann segir að skyndilán hafi verið stofnanavædd.
Hávær umræða um ofmeðhöndlun og ofgreiningu á ADHD bitnar á þeim sem bíða aðstoðar. Formaður ADHD-samtakanna segir að ekki megi hægja á greiningum því biðlistar séu langir.
Menntamálaráðuneytið skipar Fjarðabyggð að endurtaka samráðsferli vegna uppstokkunar í skólastjórnum. Sveitarfélagið vill meðal annars leggja niður nær allar stöður aðstoðarskólastjóra. Ráðuneytið telur þetta meiriháttar breytingu sem kalli á samráð við skólaráð og foreldaráð.