Skjálftavirkni á Reykjanesskaga er heldur minni en síðustu tvo sólarhringa. Kynnisferðir hætta á hádegi ferðum með farþega í Bláa lónið. Dómsmálaráðherra segir að undirbúningur mögulegra varnargarða til að vernda mikilvæga innviði sé hafinn.
Forsætisráðherra Ísraels ætlar sér yfirráð yfir Gaza að stríði loknu og segir að Ísrael ætli að stjórna svæðinu um alla ókomna tíð. Mánuður er í dag liðinn frá stórfelldri árás Hamas á Ísrael, sem varð kveikjan að allsherjarstríði. Fólk safnaðist saman fyrir utan Ráðherrabústaðinn í morgun og krafði stjórnvöld um að fordæma grimmdarverk Ísraels.
Greinileg ummerki voru um rottuskít og þvag í kringum matvæli sem voru geymd við ófullnægjandi aðstæður í kjallara í Sóltúni í Reykjavík - og talið er að hafi verið dreift til matvælafyrirtækja. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fargaði fleiri tonnum af matvælum úr kjallaranum.
Landsnet þarf að flyta rafmagn um laskaða línu á Austurlandi og hætt er við að rafmagn fari þar af í dag líkt og gerðist í nótt. Skemmdir hafa orðið á nokkrum línum á Norður- og Austurlandi vegna mikillar ísingar sem hlóðst á línur og þyngir víra.