Bandaríkin eru reiðubúin að veita Úkraínu öryggistryggingar svipaðar Natósamningnum og er talið að Trump hafi rætt þann möguleika á fundi hans með Pútín í gær. Þeir sömdu ekki um vopnahlé.
Það skásta sem gat gerst á leiðtogafundinum var að ekkert kæmi út úr honum, segir fyrrverandi utanríkisráðherra. Verra hefði verið ef forsetarnir hefðu gefið út yfirlýsingar sem sneru öllu á hvolf.
Einn sjókvíaeldislax til viðbótar fannst í Haukadalsá í Dölum í gær við ádráttarveiði með netum í ánni.
Umhverfisráðherra segir að verkefnisstjórn rammaáætlunar sé ráðherra aðeins til ráðgjafar um virkjanakosti. Hann vill færa Kjalölduveitu og Héraðsvötn í biðflokk, þvert á tillögur verkefnastjórnarinnar.
Danska lögreglan segir að lestin sem fór út af sporinu á Suður-Jótlandi í gær hafi verið á töluverðum hraða þegar hún hafnaði á ökutæki sem var á leið yfir teinana. Sextug kona lést í slysinu og 27 slösuðust.
Slökkvilið fór í átján útköll vegna vatnsleka í vesturhluta Reykjavíkur í úrhellisrigningu í gær. Það flæddi inn í kjallara bæði Safnahússins og Kjarvalsstaða.
Það verður keppt í fingrafimi, listrænni tjáningu og útgeislun í Salnum í dag, þegar tíu ungir tónlistarmenn etja kappi í fyrstu alþjóðlegu píanókeppninni hér á landi.
Bikarúrslitaleikur kvenna í fótbolta er klukkan fjögur í dag. FH er komið í úrslit í fyrsta skipti í sögu félagsins og mætir þar Breiðabliki sem er á leið í fimmta úrslitaleikinn í röð.