Kaup á eignum Grindvíkinga er meðal þess sem er til skoðunar við ríkisstjórnarborðið en stíf fundahöld hafa verið í ráðherrabústaðnum í morgun. Ráðherrar ræða aðgerðirnar nánar strax eftir hádegi.
Stefnt er á að koma rafmagni á allan Grindavíkurbæ í dag. Fulltrúar Landsnets og pípulagningamenn eru að störfum í bænum.
Formaður Flokks fólksins ætlar að leggja fram vantrauststillögu á matvælaráðherra þegar þing kemur saman í dag. Matvælaráðherra segir ekki tilefni til sérstakra aðgerða af hennar hálfu vegna álits umboðsmanns.
Formaður Solaris segir orðræðu utanríkisráðherra á Facebook um liðna helgi jaðra við að vera hatursorðræða. Orð ráðherra ýti undir andúð í garð flóttafólks.
Aðeins tveir frambjóðendur eru eftir í forvali Repúblíkana fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, eftir að Ron DeSantis dró sig úr baráttunni. Nikki Haley og Donald Trump etja kappi í forvali í New Hampshire á morgun.
Innviðaráðherra hefur boðað sveitarstjórnum lækkun á framlagi úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga í kjölfar dóms þar sem ríkinu er gert að greiða Reykjavíkurborg vangoldin framlög úr sjóðnum. Formaður sambands íslenskra sveitarfélaga er ekki sammála því að taka þurfi fjármunina úr jöfnunarsjóði.
Maður sem var handtekinn á Akureyri tólfta janúar var virkur í samtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki, samkvæmt upplýsingum sem lögregla fékk. Lögregla gefur hvorki upp hversu virkur hann var né hvort hann hafi verið eftirlýstur.
Utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna þrýsta á stjórnvöld í Ísrael að ljá máls á viðræðum um sjálfstætt ríki Palestínumanna á fundi þeirra sem nú stendur yfir í Brussel. Utanríkisráðherrar Ísraels og Palestínu eru meðal gesta á fundinum.