Yfir eitt þúsund hafa fundist látin eftir jarðskjálftana í Mjanmar í gær. Björgunarfólk leitar í húsarústum víða um landið og í nágrannaríkjum.
Jarðskjálftafræðingur segir líklegt að fleiri eigi eftir að finnast látin. Skjálftar á þessum slóðum eru vegna flekahreyfinga, þegar Evrasíuflekinn og Indlandsflekinn rekast saman.
Danir eru afar ósáttir við heimsókn varaforseta Bandaríkjanna til Grænlands. Utanríkisráðherra segir framkomuna gagnvart Grænlandi dapurlega. Fjölga þurfi stoðum undir varnir Íslands.
Rannsóknarleiðangur á Suðurskautslandið er í uppnámi eftir að einn úr níu manna hópi fór að beita félaga sína ofbeldi og hóta lífláti. Þeir hafa óskað eftir björgun en þurfa að óbreyttu að vera á Suðurskautslandinu fram í desember.
Íslenskir skógar binda á hverju ári að jafnaði um eitt komma þrjú tonn af koldíoxíði á hektara bara í jarðvegi og tæp 10 tonn í heild. Prófessor við Landbúnaðarháskólann er ósáttur við villandi umræðu um að skógrækt geri ógagn í loftslagsmálum.
Í morgun var hægt að sjá deildarmyrkva á sólu á vestanverðu landinu. Sjónarspilið náði hámarki rétt eftir klukkan ellefu.