Jarðskjálfti af stærðinni átta komma átta varð úti fyrir Kamtsjatka-skaga í Rússlandi í nótt. Þetta er einn öflugasti skjálfti sem mælst hefur. Flóðbylgjuviðvaranir voru gefnar út í fjölda Kyrrahafsríkja og milljónum gert að forða sér.
Sendiherra Íslands í Japan segir að búast megi við flóðbylgjum þar á hverri stundu en þær verði líklega ekki stórar. Japanar taki þessu með ró.
Stjórnvöldum var kunnugt um að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu var ekki afturkölluð með skýrum hætti. Það kemur fram í óútgefinni skýrslu um stöðuna í aðildarviðræðunum. Skýrslan var skrifuð 2018, þegar Guðlaugur Þór Þórðarsón var utanríkisráðherra.
Rúmlega sex þúsund tonn af eldislaxi drápust í sjókvíum fyrstu sex mánuði ársins. Aldrei hafa fleiri laxar drepist á svo stuttum tíma.
Gistinóttum á hótelum fjölgaði í júní í öllum landshlutum en mest á Vesturlandi, Vestfjörðum og Austurlandi. Erlendum ferðamönnum fjölgaði en Íslendingum fækkaði frá sama tíma í fyrra.
Bandaríkjaforseti segist hafa skorið á öll samskipti við kynferðisbrotamanninn Jeffrey Epstein eftir að hann réði til sín starfsfólk úr heilsulind golfklúbbs Trumps. Óralangt sé síðan þeir höfðu nokkuð saman að sælda.
Tvær vikur eru frá því að eldgos hófst á Sundhnúksgígaröðinni. Gosvirkni er stöðug og náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni biður fólk vinsamlegast um að „príla ekki á nýstorknuðu hrauni.“
Evrópska knattspyrnusambandið sér fram á minnst 2,8 milljarða króna tap á Evrópumóti kvenna í fótbolta sem lauk á sunnudaginn, þrátt fyrir metfjölda áhorfenda.