Sex dóu úr hungri síðasta sólarhringinn samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á Gaza. Ísraelsher hefur gefið enn eina tilskipunina um brottflutning fólks, íbúum Gaza-borgar er skipað að flýja suður.
Nöfn barna sem hafa verið drepin í Ísrael og Palestínu, óma í Glerarkirkju í dag, þar sem þau verða lesin til minningar um líf þeirra. Eftir hádegi verða fjöldafundir á sjö stöðum um allt land til stuðnings Palestínu.
Ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar um að grípa ekki til aðgerða samkvæmt lögum um umhverfisábyrgð þegar eldislaxar sluppu úr sjókvíum í Patreksfirði fyrir tveimur árum hefur verið felld úr gildi af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Náttúrugrið sem kærðu ákvörðunina segja stofnunina ekki geta bara beðið eftir að máli dagi uppi.
Þrjú verðbréfafyrirtæki greiða sextíu milljónir í sekt vegna lögbrota við söluna á Íslandsbanka árið 2022.
Félagsmenn sem starfa hjá Alcoa eru tilbúnir að sverfa til stáls, segir formaður Afls starfsgreinasambands, sem undirbýr nú atkvæðagreiðslu um verkföll. Þolinmæðin er brostin.
Sérstök áhersla er lögð á samfélagslöggæslu á Ljósanótt í Reykjanesbæ. Lögreglan er fjölmenn og sýnileg og grípur inn í hópamyndun og unglingadrykkju.
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hóf undankeppni HM 2026 með látum. Ísland burstaði Aserbaísjan 5-0 á Laugardalsvelli í fyrsta leik sínum í undankeppninni í gærkvöld.