Hungursneyð er á norðurhluta Gaza strandarinnar. Sameinuðu þjóðirnar lýstu því formlega yfir í morgun. Framkvæmdastjórinn segir hungursneyðina vera manngerða hörmung.
Jökulhlaup er hafið úr Hafrafellslóni austan Langjökuls. Hlaupið rennur í farveg Svartár og þaðan í Hvítá í Borgarfirði.
Lögreglan fór í hádeginu fram á gæsluvarðhald yfir konu sem talin er tengjast hraðbankaþjófnaði í Mosfellsbæ á þriðjudag. Um tuttugu milljónir voru í hraðbankanum.
Forstjóri MAST segir ekki hægt að segja til um hve margir eldislaxar sluppu úr sjókví Arctic Fish í Dýrafirði eða afleiðingar þess. Bíða þurfi niðurstöðu greininga á fleiri löxum.
Fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnin gæti þurft að stíga stærri skref en til stóð í fjármálaáætlun vegna stýrivaxtaákvörðunar Seðlabankans. Hún hafi ekki komið á óvart.
Íslandspóstur hættir að senda vörur til Bandaríkjanna á mánudag vegna breytinga á tollum. Framkvæmdastjóri netverslunar segir áfall að missa Bandaríkjamarkað.
Aðsókn að Listasafni Íslands meira en tvöfaldaðist í vor þegar vídjóverkið The Clock var í sýningu. Hjón úr Hafnarfirði leigðu sér hótelherbergi í miðborginni til að geta nýtt sér sólarhringsopnun safnsins til hins ítrasta.
Hátt í sautján þúsund hlauparar eru skráðir til leiks í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun og hafa aldrei verið fleiri. Von er á fínasta hlaupaveðri.