Hamas-samtökin hafa samþykkt að láta af stjórn á Gaza og sleppa öllum ísraelskum gíslum úr haldi. Ísraelsher hefur haldið áfram árásum á Gaza í dag þrátt fyrir tilmæli Bandaríkjaforseta um að láta af þeim umsvifalaust.
Utanríkisráðuneytið hefur upplýst ísraelsk stjórnvöld um að Íslendingur sé um borð í hinum svokallaða Frelsissflota, alþjóðlegum skipaflota sem er á leið til Gaza með hjálpargögn, og minnt þau á að virða beri alþjóðalög.
Formaður Samtaka fyrirtækja í landbúnaði segir að frumvarp atvinnuvegaráðherra að nýjum búvörulögum feli í sér gjörbreytingu á landbúnaðarkerfinu án samráðs við greinina. Formaður Framsóknarflokksins kallar frumvarpið grímulausa aðför að landbúnaði í landinu.
Maður sem var stunginn með hnífi í miðborg Reykjavíkur í gærkvöld er ekki í lífshættu. Árásarmaðurinn flúði en náðist fljótlega.
Gervigreindarleikkona sem sögð er í viðræðum um umboðsskrifstofur í Hollywood hefur valdið usla í bransanum vestanhafs. Gervigreind getur ekki tekið sess fólks í listsköpun, segir íslensk leikkona.
Breiðablik varð í gærkvöld Íslandsmeistari kvenna í fótbolta eftir sigur á Víkingum. Liðið er nú handhafi bæði Íslands- og bikarmeistaratitilsins.