Tvær hraunspýjur renna yfir varnargarð norðan við Svartsengi. Verið er að reisa nýjan garð til að verja orkuverið. Verulega hefur dregið úr gosóróa síðasta sólarhring. Lítil yfirborðsvirkni er í gígnum.
Aðildarviðræður Evrópusambandsins við Úkraínu og Moldóvu hefjast eftir helgi. Rúm tvö ár eru síðan ríkin sóttu um aðild í kjölfar allsherjarinnrásar Rússa í Úkraínu.
Ekki er vitað hvers vegna kviknaði í endurvinnslufyrirtækinu Pure North í gærkvöldi. Einn var fluttur þungt haldinn á Landspítala með reykeitrun.
Samkomulag um þinglok náðist í nótt. Frumvarp um sölu á Íslandsbanka og lögreglulög verða afgreidd en stór mál sitja á hakanum.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna segja að mannúðarhlé Ísraelshers á Gaza hafi engin áhrif haft á flutning hjálpargagna til bágstaddra.
Löng bið er eftir plássi á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Yfir tuttugu hjúkrunarrýmum var lokað vegna myglu og að óbreyttu þarf að loka tíu í viðbót.
Viðskiptaráð Íslands telur að tillaga Félags lýðheilsufræðinga, um takmarkanir áfengissölu á frjálsum markaði, standist ekki skoðun. Áfengisdrykkja unglinga hafi minnkað þótt framboð hafi aukist.
Þrír Íslendingar kepptu í morgun í undanrásum á EM í sundi. Snorri Dagur Einarsson er annar varamaður inn í undanúrslit í 50 metra bringusundi í kvöld.