Að minnsta kosti 22 börn voru drepin í árásum Ísraelshers á Gaza í nótt. Ísraelsk stjórnvöld hafa hert árásir eins og þau höfðu boðað. Morguninn er sá blóðugasti í margar vikur.
Vegagerðin fær um þriggja milljarða króna aukafjárveitingu frá ríkinu. Hún fer að mestu í að endurbyggja vegi á Vesturlandi.
Norðurþing hýrudró slökkviliðsmenn sveitarfélagsins um tugmilljóna launagreiðslur. Formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna segir að slökkviliðsmenn hafi verið sviknir um fleira en laun.
Jörð skelfur enn í Grímsey, hátt í 900 skjálftar hafa mælst þar síðan í gærmorgun, sá stærsti 4,7.
Enn er óvíst hvort forseti Rússlands kemur til viðræðna við Úkraínuforseta í Tyrklandi á morgun. Rússar vilja ekki gefa upp hverjir mæta til Istanbúl fyrir þeirra hönd.
Fjöldi lögreglumanna tekur þátt í umfangsmiklum aðgerðum á Suðurlandsvegi, rétt fyrir utan höfuðborgina. Þrjú lögregluembætti og fleiri stofnanir sinna þar eftirliti með rútum og vörubílum.
Haukar eru Íslandsmeistarar kvenna í körfubolta eftir framlengdan spennutrylli í gærkvöld. Verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar setti upp skotsýningu í leiknum.