Ekkert hefur enn spurst til Íslendings sem átti flug frá Dómíníska lýðveldinu til Þýskalands fyrir viku. Fjölskyldan er hrædd um að hann sé annaðhvort í fangelsi eða á sjúkrahúsi og geti þess vegna ekki látið vita af ferðum sínum.
Tvö flutningaskip komu til hafnar í Úkraínu í gær, þau fyrstu síðan Rússar sögðu sig frá samningi um öruggar siglingaleiðir. Til stendur að þau flytji hveitikorn til Egyptalands og Ísraels.
Mikilvægt er að læknar og heilbrigðisstarfsfólk viðurkenni mistök í starfi umsvifalaust. Þetta segir norskur læknir sem var valdur að dauða kornabarns fyrir tíu árum. Alþjóðlegur dagur öryggis sjúklinga er í dag.
Stefnt er að opnum kynningarfundum um breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur og umhverfismats vegna Sundabrautar í byrjun næsta mánaðar. Framkvæmdir gætu hafist árið 2026.
Efni í bloggfærslum Páls Vilhjálmsonar kennara við Fjölbrautaskólann í Garðabæ hafa áhrif á menningu skólans og skapa jarðveg fyrir fordóma að sögn hinsegin nemenda.
Harkaleg handtaka lögreglu í Kaupmannahöfn hefur vakið athygli þar í landi. Piparúða var beitt gegn karlmanni á fimmtugsaldri sem talaði í símann á meðan hann var að hjóla. Handtakan er í rannsókn.
Víkingar, nýkrýndir bikarmeistarar karla í knattspyrnu, geta bætt Íslandsmeistaratitli í safnið í dag - án þess þó að spila leik.