Óvíst er hvort samkomulag næst á lokadegi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Ísland er meðal um þrjátíu ríkja, sem ætla ekki að samþykkja lokaályktun nema kveðið verði á um útfösun jarðefnaeldsneytis.
Jafnvægi er að komast á hagkerfið, segir forsætisráðherra um stýrivaxtalækkun Seðlabankans. Hún hefur litlar áhyggjur af minnkandi hagvexti.
Fjöldi barna er á Barnaþingi og vinnur tillögur að því hvernig Ísland getur orðið betra samfélag fyrir börn.
Inflúensa og aðrar umgangspestir herja á landann og álag á heilsugæslu hefur aukist undanfarnar vikur.
Stjórnvöld í Úkraínu ætla ekki að samþykkja nein ákvæði sem brjóta gegn fullveldi landsins í friðarsamkomulagi, segir aðalsamningamaður Úkraínumanna. Áætlun Bandaríkjastjórnar þykir enduróma ítrustu kröfur rússneskra stjórnvalda.
Félags og húsnæðismálaráðherra vonar að tvö frumvörp sem eiga að bæta kjör örorku- og ellilífeyrisþega verði að lögum fyrir jól
Atkvæðagreiðslu í Eurovision hefur verið breytt til að bregðast við óánægju með framgöngu Ísraela í ár.
Málverk eftir Fridu Kahlo var slegið á tæpar fimmtíu og fimm milljónir bandaríkjadala í gærkvöld, Það er hæsta verð sem fengist hefur fyrir listaverk eftir konu.
Meiðsli og veikindi hafa herjað á kvennalandsliðið handbolta sem lagði af stað í morgun á heimsmeistaramótið, sem hefst í Þýskalandi á miðvikudag.