Formaður Landssambands lögreglumanna segir skelfilegt ef lögreglumenn geti ekki verið öruggir í frítíma sínum. Ráðist var á lögreglumann um helgina sem var að skemmta sér á Goslokahátíð í Vestmannaeyjum. Yfirlögregluþjónn segir árásina alvarlega.
Þrír menn á sextugs- og sjötugsaldri hafa verið ákærðir fyrir að smygla rúmlega þremur kílóum af kókaíni til landsins. Þeir gætu átt yfir höfði sér allt að tólf ára fangelsisrefsingu.
Meint sjálfsvíg rússnesks ráðherra er áfall, segir talsmaður stjórnvalda í Kreml. Ráðherrann fannst látinn í gær, sama dag og Pútín Rússlandsforseti vék honum úr embætti.
Þrír milljarðar verða settir aukalega í vegaframkvæmdir, samkvæmt nýsamþykktum fjáraukalögum. Forstjóri Vegagerðarinnar segir framkvæmdir þegar hafnar víða.
Fólk sem var í bíl sem brann á Öxi um helgina - gat ekki hringt á hjálp því þar er ekkert farsímasamband. Ekkert eða lélegt samband er enn á fjölförnum vegum og ferðamannastöðum.
Búist er við að Frakkar og Bretar tilkynni í dag um aukið samstarf til að hindra flutninga á farandfólki yfir Ermarsundið. Frakklandsforseti er í opinberri heimsókn í Bretlandi.
Sóttvarnarlæknir rannsakar hópsýkingu á Laugarvatni um helgina. Talið er að tugir þríþrautakappa hafi fengið nóróveirusýkingu en óvíst er hvort veiran hafi verið í vatninu.
Margrét Lára Viðarsdóttir, markahæsti leikmaður kvennalandsliðsins í fótbolta frá upphafi, segir að liðið þurfi að fara í naflaskoðun. Ísland er úr leik á Evrópumótinu þó að einn leikur sé eftir.