VR og Efling undirbúa að beita verkföllum. Samninganefnd VR fékk umboð til þess í gærkvöld og niðurstaða könnunar á afstöðu félagsmanna í Eflingu verður fljótlega ljós.
Fulltrúar Hamas funda í dag með ráðamönnum frá Egyptalandi og Katar um vopnahlé á Gaza. Reynt er að koma því á áður en Ísraelar hefja allsherjar innrás í Rafah.
Rektor Háskóla Íslands hefur áhyggjur af því að að boðaðar hugmyndir um niðurfellingu á skólagjöldum sjálfstætt starfandi háskóla geri fjármögnun háskólastigsins erfiðari ef ekki komi til nýtt fjármagn.
Frumvarp um breytingar á raforkulögum með forgang fyrir heimili og minni notendur verður ekki lagt fyrir Alþingi á næstunni eins og til stóð. Samfélagsleg ábyrgð orkufyrirtækja er betri en íþyngjandi lög, segir formaður atvinnuveganefndar.
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins segir mikilvægt að grafa ekki undan fælingarmætti bandalagsins með ummælum á borð við þau sem Donald Trump lét falla um helgina.
Mögulegur loðnufundur suðaustur af landinu verður rannsakaður betur í dag. Sáralítið fannst það sem af er mælingum Hafrannsóknastofnunar, sem hafði gefið út ráðgjöf um engar loðnuveiðar á þessari vertíð.
Um helmingur landsmanna er andvígur þátttöku Íslands í Eurovision. Konur og yngra fólk var frekar á móti þátttöku en karlar og þeir sem eldri eru.
Félagaskipti sambísku landsliðskonunnar Rachel Kundananji frá Madrid CFF til Bay FC í Bandaríkjunum eru þau langdýrustu í sögu kvennafótboltans. Félög eyddu um 150% meira í leikmenn í janúar en á sama tíma í fyrra.