Sækja þarf um nýtt virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun eftir að Hæstiréttur staðfesti ógildingu héraðsdóms á virkjunarleyfinu. Forstjóri Landsvirkjunar segir niðurstöðuna vonbrigði. Hún feli í sér aukinn kostnað fyrir Landsvirkjun og samfélagið allt.
Forseti Úkraínu hvetur bandaþjóðir til þess að herða viðskiptaþvinganir í garð Rússa. Drónaárásir Rússa á Úkraínu í nótt voru þær umfangsmestu frá því innrásin hófst fyrir rúmum þremur árum.
Forsætisráðherra Spánar ætlar ekki að segja af sér þrátt fyrir ýmis spillingarmál sem hafa komið upp innan ríkisstjórnarinnar. Hann tilkynnti í staðinn um aðgerðir gegn spillingu.
Viðbrögð nærsamfélagsins við áformum um vindorkuver í Garpsdal hafa verið frekar jákvæð, segir oddviti Reykhólahrepps. Framkvæmdaaðilar hyggjast starfrækja samfélagssjóð til að auka ávinning sveitarinnar.
Yngra fólk ber meira traust til fjölmiðla á Íslandi en þeir sem eldri eru samkvæmt nýrri skýrslu fjölmiðlanefndar. Um fjörutíu prósent landsmanna telja svokallað djúpríki vera meinsemd í íslensku stjórnkerfi.
Lífverðir á vegum sænsku öryggislögreglunnar hafa árum saman dreift upplýsingum um ferðir valdhafa landsins í gegnum æfingaforritið Strava. Talsmaður lögreglunnar segir að embættið hafi ekki fylgt verklagi.
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta spilar sinn síðasta leik á Evrópumótinu á morgun. Markvörður liðsins segir að það verði auðvelt að gíra sig í leikinn þrátt fyrir slæma stöðu liðsins.