Formaður Eflingar segir að Samtök atvinnulífsins hafi tekið upp launaviðræður við önnur félög án samráðs við Eflingu og Starfsgreinasambandið; ræða eigi verkfallsaðgerðir við baklandið. Formaður Starfsgreinasambandsins segir útilokað að klára kjarasamninga fyrir vikulok.
Smáskjálftavirkni í kvikuganginum á Reykjanesskaga í nótt er ekki talin gefa vísbendingar um að gos sé að hefjast. Sterk gaslykt hefur fundist í Reykjanesbæ, er frá nýja hrauninu og virkjuninni í Svartsengi.
Formaður Flokks fólksins segir að Matvælastofnun sé með allt niðrum sig varðandi blóðmerahald. Yfirdýralæknir sé ekki starfi sínu vaxinn og skipta þurfi um. Þá sé Ísteka með kúgunartilburði gagnvart blóðbændum.
Alexei Navalní verður borinn til grafar í Moskvu á föstudag. Ekkja hans ávarpaði Evrópuþingið í morgun og segir að baráttunni fyrir betra Rússlandi ekki lokið.
Hjálparsamtökin Solaris áætla að koma sautján Palestínumönnum frá Gaza til Egyptalands á allra næstu dögum. Sjálfboðaliði segir ekkert hæft í sögusögnum um að samtökin beiti mútum til að koma fólki yfir landamærin.
Lögregla rannsakar atvik á Reykjanesbraut þar sem rútubílstjóri ók á fleygiferð á móti umferð svo alvarleg hætta skapaðist.
Mun fleiri tóku þátt í mótmælum gegn Bandaríkjaforseta, í forvali Demókrata í Michigan í gær, en skipuleggjendur bjuggust við. Tugþúsundir greiddu Biden ekki atkvæði; eitthvað sem gæti komið sér illa í forsetakosningunum í nóvember.
Ásahreppur vill hefja viðræður við Rangárþing ytra og Rangáþing eystra um sameiningu sveitarfélaganna. Sveitarstjóri Ásahrepps segir ástæðuna vera breytt lög um íbúafjölda sveitarfélaga.
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mætir Svíum í undankeppni EM í kvöld. Sænska liðið varð í fjórða sæti á HM í desember og íslensku leikmennirnir búast við erfiðum leik.