Tuttugu og átta særðust þegar bíl var ekið inn í mannfjölda í Munchen í Þýskalandi í morgun. Talið er að bílnum hafi verið ekið á fólkið af ásettu ráði.
Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna ræða samtal forseta Bandaríkjanna og Rússlands um vopnahlé í Úkraínu á fundi í Brussel í dag. Fjölmargir hafa gagnrýnt að ræða eigi vopnahlé eða frið án aðkomu stjórnvalda í Kyiv.
Sex náttúruverndarsamtök vara við lagafrumvarpi sem ætlað er að koma Hvammsvirkjun í gegn, og segja það setja hættulegt fordæmi um að hægt sé að breyta lögum ef ráðherra hugnast ekki niðurstaða dómstóla.
Fjármálaráðherra segir að styrkjamál Flokks fólksins hafi engar afleiðingar fyrir önnur sambærileg mál innan stjórnsýslunnar.
Viðræður um fimm flokka meirihluta til vinstri í borginni halda áfram í dag.
Greiningardeild Landsbankans spáir að verðbólga sé á niðurleið og verði í kringum fjögur prósent í maí.
Framkvæmdir við landfyllingu í Þorlákshöfn hafa verið stöðvaðar tímabundið vegna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Því fylgir stórkostlegt tjón, að sögn sveitarfélagsins.
Þrettán þúsund manns bíða eftir ökuskírteini eftir að framleiðsla þeirra var færð heim frá Ungverjalandi. Hún á að hefjast hér á mánudag.
Karlalið Víkings í fótbolta spilar í kvöld heimaleik á móti gríska liðinu Pan-aþinaikos í Sambandsdeild Evrópu. Heimaleikurinn verður þó ekki spilaður á Íslandi, heldur í Finnlandi.