Ekkert lát virðist á norðanáhlaupinu sem gengur yfir stærsta hluta landsins. Mikill snjór er víða á Norðurlandi og lífríkið er í hættu. Þá hafa vöruflutningar farið úr skorðum.
Ferðaþjónusta á Austurlandi hefur orðið af tekjum vegna óveðursins. Þjóðvegurinn til Austurlands hefur verið lokaður, bæði norður- og suðurleiðin. Hóteleigandi segir talsvert um að ferðamenn hafi hætt við hringferðir.
Nokkuð tjón varð á bænum Ytri Víðivöllum í Fljótsdal þegar steyptur veggur féll á seglskemmu í rokinu. Seglið sprakk upp og hurðirnar þeyttust ofan í læk.
Lögregla hefur lokið rannsókn á andláti karlmanns í Breiðholtslaug í desember 2022. Málið er komið til héraðssaksóknara. Til skoðunar er meðal annars hvort sundlaugargestur beri refsiábyrgð.
Ekki hefur náðst samkomulag á Alþingi um afgreiðslu mála fyrir sumarfrí. Þingmenn stjórnarandstöðunnar segja að ágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna hafi tafið viðræður.
Seðlabankastjóri segir að þrátt fyrir hækkandi afborganir af lánum séu heimili landsins ekki við það að lenda í greiðsluvanda. Hér sé næg atvinna, laun hafi hækkað og fólk hafi skuldbreytt óverðtryggðum lánum í verðtryggð.
Formenn Íhalds- og Verkamannaflokks tókust á í gærkvöld í fyrstu kappræðum fyrir þingkosningar í Bretlandi í byrjun júlí. Samkvæmt skoðanakönnunum hefur Verkamannaflokkurinn mikið forskot.