Forseti Íslands hittir í dag formenn flokkanna sex sem náðu kjöri á Alþingi. Formennirnir mæta til Bessastaða í röð eftir kjörfylgi. Formaður Viðreisnar lagði til að formaður Samfylkingarinnar fengi umboð til stjórnarmyndunar og vonar að hægt verði að taka fyrstu skref í átt að stjórnarmyndun í dag.
Fyrrverandi formaður Vinstri grænna telur að vinstri flokkarnir sem ekki náðu brautargengi í nýafstöðnum kosningum ættu að íhuga að sameinast og ná þannig sex manna þingflokki.
Það er full ástæða til að skoða hvort lækka eigi þröskuld fyrir jöfnunarþingsæti að mati stjórnmálafræðings. Ekki er útlit fyrir að margir kjósendur hafi kosið taktískt á laugardag.
Aukin harka færist í mótmæli gegn ríkisstjórn Georgíu. Ástandið í landinu minnir um margt á aðdraganda rósabyltingarinnar árið 2003.
Bandaríkjaforseti hefur náðað son sinn, sem átti yfir höfði sér refsingu fyrir sakamál tengd skattsvikum og skotvopnakaupum.
Varasöm klakastífla hefur myndast í Ölfusá nærri Selfossi. Fólk í nágrenni við ána er beðið um að vera á varðbergi og lögreglan fylgist grannt með þróuninni.
Íslenska kvennalandsliðið vann sögulegan sigur í gær á EM í handbolta.