Reynt verður að blása lífi í friðarvonir í Úkraínu á leiðtogafundi í London í dag. Forsætisráðherra Bretlands vinnur að áætlun um stríðslok í samvinnu við Frakka.
Atkvæðagreiðsla í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins hófst í morgun. Niðurstöður ættu að liggja fyrir í hádeginu.
Vopnahlé á Gaza hangir á bláþræði. Fyrsta áfanga þess er lokið og sá næsti átti að hefjast í dag.
Suðvestan hvassviðri gengur yfir landið í dag og í nótt. Appelsínugul viðvörun hefur verið gefin út fyrir vestanvert landið og heiðar gætu lokast þegar líður á daginn.
Frumvarpi fjármálaráðherra um kílómetragjald á ökutæki var dreift á Alþingi í gær. Framkvæmdastjóri FÍB gagnrýnir að enn sé stefnt að því að innheimta sama kílómetragjald af öllum bílum undir þremur og hálfu tonni.
Ákjósanlegur búnaður til að kortleggja stórstraumsfjöru er ekki til hér á landi en Náttúrufræðistofnun telur sig samt geta gert slíkar mælingar í Seyðisfirði. Þær eiga að skera úr um hve mikið pláss er fyrir eldiskvíar firðinum.
Foreldrar barna yngri en átján ára sem missa maka munu eiga rétt á sex mánaða launuðu sorgarleyfi samkvæmt frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra.