Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar vilja að ríki og sveitarfélög segi upp samningum við ræstingafyrirtæki sem hafa ekki staðið við umsamdar launahækkanir. Þeir hafa óskað eftir fundi með forsætisráðherra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Ekki er útilokað að Bandaríkin beiti Rússa hernaðarlegum þrýstingi, að sögn varaforseta landsins. Hann fundar með forseta Úkraínu á ráðstefnu um öryggismál í Munchen í Þýskalandi í dag. Bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands verða á ráðstefnunni.
Atkvæðagreiðslu kennara vegna verkfalls í leik- og grunnskólum lýkur í dag. Verði aðgerðirnar samþykktar hefst verkfall í byrjun mars.
Flug raskast í minnst níu daga á Reykjavíkurflugvelli vegna vinnu við Fossvogsbrú sumarið 2026 og 27. Ef leyfi fæst - verður reynt að vinna á nóttunni til að lágmarka raskið.
Önnur flugbraut Reykjavíkurflugvallar er enn lokuð, vegna trjágróðurs í Öskjuhlíð.
Frá apríl greiða allir sama komugjald í brjóstamyndatöku vegna krabbameinsleitar. Komugjald kvenna í áhættuhópi og eftirliti lækkar um tólf þúsund krónur.
Ófremdarástand er á vegum á Vesturlandi vegna bikblæðinga og holóttra vega. Sveitarstjóri í Dalabyggð segir ekki hægt að bíða eftir nýrri samgönguáætlun til að hefja aðgerðir.
Brynhildur Guðjónsdóttir hættir sem borgarleikhússtjóri í lok mars. Leikfélag Reykjavíkur auglýsir starfið laust til umsóknar á morgun.
Þétt dagskrá er í Glerárkirkju á Akureyri í dag þar sem allir prestar bæjarins sameina krafta sína á degi elskenda. Ógiftum pörum býðst að ganga í það heilaga í raðgiftingarathöfn.