Mæðgin hafa verið ákærð fyrir umfangsmikil fjársvik hjá Sjúkratryggingum grunuð um að falsa kröfur upp á 156 milljónir á rúmum áratug.
Búist er við vonskuveðri um allt land í dag með vestan -og suðvestan hvassviðri og éljagangi. Óvissustig er vegna ofanflóðahættu á Austfjörðum og búast má við aukinni snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum.
Verkfall sem hefur áhrif á fimm þúsund börn hófst í morgun. Formaður Kennarasambandsins segir að það verði átak að snúa stöðunni við. Deiluaðilar funduðu árangurslaust hjá ríkissáttasemjara alla helgina
Vísitölur á fjármálamörkuðum í Evrópu og Asíu hafa fallið, eftir að Bandaríkjastjórn boðaði tollahækkanir á vörur frá Kanada, Mexíkó og Kína. Leiðtogar Evrópusambandsins undirbúa viðbrögð við álíka aðgerðum. Utanríkisráðherra segir dapurlegt að tollastríð sé í uppsiglingu, það bitni á öllum, stórum sem smáum
Tæplega tvö hundruð gestir á tveimur þorrablótum á Suðurlandi veiktust um helgina, sama veisluþjónustan sá um veitingar á blótunum . Matvælastofnun skoðar málið.
Bráðaaðgerðir í orku- og húsnæðismálum eru á þingmálalista nýrrar ríkisstjórnar sem kynntur verður í dag.
Víkingur Heiðar Ólafsson fékk Grammy-verðlaun í gær í flokki klassískra einleiks-hljóðfæraleikara fyrir flutning á Goldberg-tilbrigðum Jóhanns Sebastians Bachs.
Tindastóll og Stjarnan mættust í toppslag úrvalsdeildar karla í körfubolta í gær. Leikið var fyrir fullu húsi í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ og Tindastóll hafði betur í spennandi leik.