Búið er að fresta atkvæðagreiðslu um veiðigjaldsfrumvarp atvinnuvegaráðherra, eftir að forseti þingsins knúði fram lok annarar umræðu um frumvarpið í gær. Meirihluti atvinnuveganefndar lagði eftir fram breytingatillögu við frumvarpið.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kemur hingað til lands í næstu viku. Á fundum með forsætis- og utanríkisráðherra stendur meðal annars til að ræða möguleikana á samstarfi í öryggis- og varnarmálum.
Aukin harka í loftárásum Rússa á Úkraínu heldur áfram, íbúar í Kyiv eru dauðuppgefnir eftir svefnlausar nætur. Rússar skutu hundruðum dróna og tugum eldflauga að Úkraínu í nótt.
Sóttvarnalæknir varar við því að fólk hætti að bólusetja sig eða börn sín gegn mislingum. Næstum 130 þúsund smit voru staðfest í Evrópu í fyrra, tvöfalt fleiri en í hitteðfyrra.
Reykjavíkurborg vill útrýma tröllahvönn í borgarlandinu. Plantan getur valdið bruna á húð og jafnvel sjónskerðingu, berist safi úr henni í augu fólks.
Um átta hundruð hlauparar taka þátt í Laugavegshlaupinu sem nú stendur yfir milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Búist er við fyrstu þátttakendum í mark um eittleytið.