Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að Rússar hafi gert "mistök" með eldflaugaárás á úkraínsku borgina Sumy um helgina, þar sem meira en þrjátíu manns féllu. Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu vill að Trump komi í heimsókn til að skilja betur afleiðingarnar af allsherjarinnrás Rússa.
Fjórir piltar sem lentu í alvarlegu bílslysi skammt frá Hofsósi á föstudag eru ekki lengur í lífshættu. Samverustund verður í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á morgun vegna slyssins.
Sósíaldemókratar unnu sigur í héraðs- og sveitarstjórnarkosningum í Finnlandi í gær. Ríkisstjórnarflokkarnir fengu flestir laka kosningu. Finnaflokkurinn beið afhroð.
Þrír úr bæjarstjórn Akureyrar vilja skýringar á því að atNorth hafi í þrígang fengið úthlutað lóð undir gagnaver í bænum án auglýsingar. Forseti bæjarstjórnar segir það hag fyrirtækisins og bæjarbúa að þau bæti í reksturinn.
Minkabanar og refaskyttur hafa sent kvörtunarbréf til sveitarfélaga sem sum borga enn samkvæmt 30 ára gömlum taxta fyrir grenjavinnslu og veiðar og sniðganga vana veiðimenn. Formaður félags atvinnuveiðimanna segir minkinn eitthvert mesta og versta skaðræði lífríkisins.
Heilmikið hrafnahret gekk yfir stóran hluta landsins í gær. Vetrarveður er í kortunum og gul viðvörun í gildi fyrir norðanvert landið vegna hvassviðris og hríðar.
Norður-Írinn Rory McIlroy varð í gærkvöld sjötti kylfingurinn til að vinna öll fjögur risamótin í golfi. Ellefu ár eru síðan McIlroy vann síðast risamót.