Hallinn á ríkissjóði er áætlaður 41 milljarður króna á næsta ári, sem er 16 milljarða minni halli en í ár. Fjármálaráðherra segir heilbrigðis- og velferðarmál í forgrunni.
Stjórnarandstaðan gefur ekki mikið fyrir frumvarpið. Ríkisstjórnin hafi brugðist í efnahagsmálum og frumvarpið minni á kosningabækling.
Alþingi verður sett í dag og verkalýðsfélög hafa boðað til mótmæla á Austurvelli vegna síhækkandi framfærslukostnaðar heimilanna. Forseti ASÍ segir hita í fólki.
Þrjú voru handtekin í tengslum við hnífaárás í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Tvö sæta gæsluvarðhaldi og bíða skýrslutöku, en sá þriðji hefur verið fluttur á Stuðla.
Heilu fjölskyldurnar þurrkuðust út í árás Ísraelshers á flóttamannabúðir á Gaza í gær. Ísraelsher segir liðsmenn Hamas hafa verið skotmarkið.
Tæknirisarnir Apple og Google þurfa að greiða meira en fimmtán milljarða evra í sektir og vangoldna skatta eftir tvo dóma sem Evrópudómstóllinn kvað upp í morgun. Með þessu lýkur áralöngum málaferlum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gegn þessum fyrirtækjum.
Kuldalegt er um að litast víðast hvar á Norður- og Austurlandi og hálka eða snjóþekja er á fjallvegum. Hvít jörð er í Mývatnssveit og aðstæður erfiðar fyrir bændur.