Vikan fram undan gæti skipt sköpum fyrir Úkraínu, segir utanríkismálastjóri Evrópusambandsins. Forseti Úkraínu er í Frakklandi til að reyna að fá aukinn stuðning og fulltrúi Bandaríkjanna hittir forseta Rússlands á morgun.
Ekki er ljóst hvernig andlát manns sem fannst í heimahúsi í Kópavogi í gær bar að. Enginn hefur verið handtekinn.
Óvíst er hvort raforkuframboð annar eftirspurn á næstu árum, samkvæmt nýrri orkuspá. Stjórnvöld þurfa að gera meira til þess að ná markmiðum sínum í orkuskiptum.
Hrannar Markússon hlaut í dag tveggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir þjófnað í Hamraborg í fyrra og hraðbankaþjófnað í Mosfellsbæ í ár.
Ný tungumálastefna Landspítalans á hvorki að auka álag á starfsfólk né ógna öryggi sjúklinga, segir verkefnastjóri á skrifstofu hjúkrunar. Árangurinn skili sér innan nokkurra ára.
Konur af erlendum uppruna eru líklegri en íslenskar til að þurfa að dvelja í Kvennaathvarfinu, þrátt fyrir að fleiri íslenskar konur leiti þangað. Framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins segir erlendar konur ekki fá nægan stuðning innan kerfisins.
Beiðnum um að fá íslenska lunda í erlenda dýragarða er reglulega hafnað. Líffræðingur segir ákveðinn tvískinnung felast í því að neita að flytja út lunda á sama tíma og hann sé veiddur í stórum stíl.
Í dag er dagur íslenskrar tónlistar. Grunnskólabörn landsins fögnuðu deginum með samsöng.
Fyrsti leikur Íslands í milliriðli á heimsmeistaramóti kvenna í handbolta er á morgun. Fyrrverandi landsliðskona segir Ísland eiga ágætis möguleika.