Ísraelsher hóf í morgun innrás í Gaza-borg, stærstu borgina á Gaza, þvert á ákall alþjóðasamfélagsins. Talið er að um milljón manns haldi til í borginni.
Maður sem grunaður er um að hafa stolið hraðbanka í Mosfellsbæ gengur laus. Héraðsdómur hafnaði kröfu um gæsluvarðhald.
Formaður fjárlaganefndar Alþingis vill að Seðlabankinn lækki stýrivexti og segir hávaxtastefnu bankans hafa runnið sitt skeið.
Búseti hefur kært byggingaleyfi fyrir grænu vöruskemmunni við Álfabakka í Reykjavík til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og vill að leyfið verði fellt úr gildi, framkvæmdir stöðvaðar og mannvirkið fjarlægt.
Ummæli utanríkisráðherra Rússlands benda eindregið til þess að ekkert verði af fundi Vladímírs Pútíns og Volodomyrs Selenskí.
Mikil hækkun á húsaleigu hefur étið upp alla hækkun húsnæðisbóta frá því í fyrrasumar. Á sama tíma hægir á hækkun húsnæðisverðs.
Á þriðja tug hnúðlaxa voru dregnir upp úr Staðará í Steingrímsfirði á dögunum.
Njáluvaka hefst í Rangárþingi í kvöld þar sem Brennu Njáls sögu verður haldið á lofti. Brennureið á laugardagskvöld verður mikið sjónarspil, að sögn brennustjóra hátíðarinnar.
Körfuknattleikssamband Íslands hefur beitt sér gegn ákvörðun Alþjóðakörfuknattleikssambandsins um að leyfa Ísrael að taka þátt í mótum.