Víðtækt rafmagnsleysi á Spáni og í Portúgal í morgun hefur haft mikil áhrif á samgöngur og fjarskipti. Yfirvöld rannsaka hvort gerð hafi verið netárás.
Rússar hafa boðað einhliða þriggja daga vopnahlé í Úkraínu um þar næstu helgi. Tilkynning Rússa kemur í kjölfar gagnrýni Bandaríkjaforseta á framferði Rússa í Úkraínu.
Maður sem ók bíl inn í mannmergð í Vancouver í Kanada í gær hefur verið ákærður fyrir manndráp. Ellefu voru drepnir, þar af stúlka á barnsaldri. Árásin setur mikinn svip á þingkosningar í landinu í dag.
Þingstörf hér heima hefjast í dag eftir páskafrí. Tugir mála bíða afgreiðslu á lokasprettinum.
Fiskistofa hefur afgreitt 723 umsóknir um leyfi til strandveiða í sumar. Veiðarnar mega hefjast fimmta maí. Ekki liggur fyrir hvert sækja á auknar veiðiheimildir vegna veiðanna sem mega standa í 48 daga.
Kafbátaeftirlitsæfing Atlantshafsbandalagsins hófst í Reykjavíkurhöfn í morgun. Fjögur herskip og tveir kafbátar taka þátt í æfingunni auk þyrlu og skips landhelgisgæslunnar.
Fram komst í gærkvöld í úrslit úrvalsdeildar karla í handbolta með sigri á FH, núverandi Íslands- og deildarmeisturum í tvíframlengdum leik. Njarðvík komst í úrslit í úrvalsdeild kvenna í körfubolta.