Haldinn var aukafundur í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fimmtudaginn 24. júlí. Tilefnið var það sem í fundargerð er kallað nýjar vendinga í umræðunni um stöðu innflytjenda í borginni. Með því er vísað til þess, þegar hópur manna fylkti liði í miðborg Reykjavíkur um næstliðna helgi, allir klæddir samskonar bolum með áletruninni Skjöldur Íslands og þýskum járnkrossi, sem er alþekkt tákn í heimi hægri-öfgahreyfinga. Aðspurðir sögðust þeir vera að „taka stöðuna á leigubílamarkaðnum.“ Af færslum á Facebook-síðu hópsins mátti ráða að þessi stöðutaka hafi einkum beinst að erlendum leigubílstjórum og þá sér í lagi þeim sem ólíkastir eru hinum íslensku Jóni og Gunna í sjón og þá umfram allt dekkri á hörund. Í fundargerð mannréttindaráðs segir að samstarfsflokkar mannréttindaráðs lýsi yfir þungum áhyggjum af því að öfgahópar merktir þekktum fasískum táknum skuli taka sér hlutverk lögreglu og ógna íbúum, einkum íbúum af erlendum uppruna. Fulltrúar minnihlutans taka undir áhyggjur meirihlutans af því að einstaklingar og hópar í samfélaginu taki lögin í sínar hendur og leggja áherslu á að ofbeldisfullir öfgahópar skuli hvorki liðnir né eiga sér samastað í íslensku samfélagi.
Alexander Kristjánsson fréttamaður hitti Sabinu Leskopf, formann mannréttindaráðs að máli
Umsjón: Ævar Örn Jósepsson
Tæknimaður: Jón Þór Helgason
Frumflutt
28. júlí 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Spegillinn
Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi, þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.