Varnaraðgerðir á Reykjanesskaga, fjölgun ofbeldisbrota gegn öldruðum og rússneskir úlfar í Finnlandi og Noregi
Forsvarsmenn HS Veitna og Bláa lónsins komu af fjöllum þegar þeim barst matsbeiðni frá lögmanni fjármálaráðuneytisins, um kostnað af björgunaraðgerðum í Grindavík og mögulega þátttöku þeirra í þeim. Beiðninni er beint að HS Orku, HS Veitum, Náttúruhamfaratryggingum og Bláa lóninu. Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra, segist ekki vera að rjúfa neina þjóðarsátt um almannavarnir. Afar mikilvægt væri að meta ábatann af aðgerðum gegn eldgosavá þegar kæmi að því að verja hagsmuni Íslands í endurtryggingum á mögulegum tjónum.
Ofbeldisbrotum gegn öldruðum hefur fjölgað síðustu ár. Í um helmingi tilfella, þar sem eru náin tengsl milli gerenda og brotaþola, eru það börn sem brjóta gegn foreldri. Þá eru kynjahlutföll í þessum málum nokkuð önnur en almennt gerist í brotum í nánum samböndum. Marta Kristín Hreiðarsdóttir, deildarstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir fjölgun ofbeldisbrota að vissu leyti í takt við aldurssamsetningu þjóðarinnar.
Aukinn ágangur rússneskra úlfa í Noregi og Finnlandi er dæmi um áhrif af innrásarstríði Rússa í Úkraínu. Í Lapplandi hafa á bilinu 30 til 50 úlfar verið skotnir á ári, nærri rússnesku landamærunum, þessa þrjá vetur sem stríðið hefur geisað. Margfalt fleiri en fyrir stríð. Rannsókn á erfðaefni úlfanna sannar að þeir koma frá Rússlandi. Og í Noregi skutu menn um eða yfir 60 úlfa síðastliðinn vetur. Þeir eru reyndar langflestir norskir að ætt og uppruna, en ekki allir.
Frumflutt
20. nóv. 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Spegillinn
Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi, þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.