Launadeila Innheimtustofnunar og fyrrverandi forstjóra, raforkukerfi á Norðausturlandi og stríð fjölmiðla við bandaríska stríðsráðuneytið
Fyrrverandi forstjóri Innheimtustofnunar sveitarfélaganna krefst þess að stofnunin greiði honum rúmar níutíu milljónir. Hann er með réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara sem er á lokastigi. Innheimtustofnun hafnar öllum kröfum og telur forstjórann fyrrverandi hafa valdið henni miklu tjóni með ákvörðunum sínum. Freyr Gígja Gunnarsson reifar málið.
Talið er kosta allt að sjö og hálfum milljarði að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á raforkukerfinu á Norðausturlandi svo hægt verði að flytja nægt rafmagn til allra byggðarlaga. Núverandi afhendingargeta rafmagns er að mestu uppurin með tilheyrandi áhrifum á orkuskipti, búsetuþróun og atvinnumál, segir Kristín Soffía Jónsdóttir í viðtali við Ágúst Ólafsson.
Frétta- og tökumenn bandarísku sjónvarpsstöðvanna ABC, CBS, NBC og CNN og Fox News eru í óða önn að tæma skrifstofur sínar í Pentagon, höfuðstöðvum bandaríska varnarmálaráðuneytisins, sem nú heitir reyndar stríðsráðuneyti. Sama á við um nánast alla aðra fjölmiðla, bandaríska og alþjóðlega, sem voru með aðstöðu í ráðuneytinu. Ástæðan er nýjar reglur ráðuneytisins sem fjölmiðlar telja stjórnarskrárbrot sem heftir getu þeirra til að fylgja grunngildum blaðamennsku og sinna skyldum sínum við almenning. Ævar Örn Jósepsson ræðir við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formann Blaðamannafélags Íslands.
Umsjón: Ævar Örn Jósepsson.
Tæknimaður: Mark Eldred.
Frumflutt
15. okt. 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Spegillinn
Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi, þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.