Áform Niceair 2,0 um Akureyrarflug, minnkandi framlög til neyðaraðstoðar og fjárhagsstuðningur ESB við Úkraínu.
Martin Michael, forstjóri Niceair 2,0, virðist ekki sérlega þekktur í flugheiminum og efasemdir hafa heyrst eftir kynningarfund hans á Akureyri á þriðjudag. Eins og hann hefur kynnt áform um að hefja flug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar er ekki um að ræða flugfélag í eiginlegum skilningi, eða einhvers konar flugrekstur, segir Jón Karl Ólafsson, sem hefur áratuga reynslu af flugrekstri og ferðaþjónustu. Heldur sé þetta söluskrifstofa sem selji flugsæti í leiguflug.
Meginástæða þess að framlög til neyðaraðstoðar í heiminum fara minnkandi er upplausn í alþjóðastjórnmálum, segja alþjóðlegu mannúðar- og hjálparsamtökin International Rescue Committee. Ný, reglubundin heimsskipan tuttugustu aldar hefur vikið fyrir nýrri heimsupplausn, með skelfilegum afleiðingum. Þessi heimsupplausn einkennist af vaxandi ágreiningi og átökum á alþjóðasviðinu, óstöðugum og síbreytilegum hagsmunablokkum, og auknu vægi hrossakaupa og baktjaldamakks.
Lungann úr deginum sátu leiðtogar Evrópusambandsríkja og Volodímír Selenskí, forseti Úkraínu, á rökstólum í Brussel og ráðguðust um hvort og hvernig fjárhagsstuðningi ESB við Úkraínu yrði háttað næstu árin. Og sambandsríkin eru ekki á eitt sátt um hvort eigi að setja frystar eignir Rússa að veði fyrir láni til Úkraínu. Talað hefur verið um að ESB láni Úkraínustjórn 90 milljarða evra og fái þá endurgreidda, þá og þegar Rússar borga þeim stríðsskaðabætur.
Frumflutt
18. des. 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Spegillinn
Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi, þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.