Ísraelsher hefur drepið yfir 60.000 Palestínumenn á Gaza frá því að hann hóf árásir sínar 7. október 2024, til að hefna mannskæðrar hryðjuverkaárásar Hamas í Ísrael þann sama dag. Árásir hersins, bæði úr lofti og á jörðu niðri, hafa staðið linnulítið allar götur síðan, ef undan er skilið tveggja mánaða vopnahlé sem hófst 19. janúar og Ísraelar rufu 18. mars. Í mars lokuðu Ísraelar líka á nánast alla aðflutninga hjálpargagna til Gaza, hvort sem það voru matvæli, lækningavörur eða annað, sem þá höfðu reyndar margoft verið takmarkaðir áður. Vegna þessa hefur ítrekað verið varað við yfirvofandi hungursneyð á Gaza og í dag sendi alþjóðlegi samráðshópurinn IPC, sem fylgist skipulega með hungri í heiminum, frá sér skýrslu, þar sem ástandinu þar er lýst sem hungri í sinni verstu mögulegu mynd. Það er í raun lagt að jöfnu við hungursneyð, og matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna segir ástandið ekki eiga sér neina hliðstæðu á þessari öld og minna mest á hungursneyðina í Eþíópíu og Bíafra á síðustu öld. Skýrslur eins og sú sem IPC sendi frá sér í morgun leiða iðulega til þess að auðveldara verður fyrir alþjóðastofnanir og alþjóðleg hjálparsamtök að koma þeim sem svelta til hjálpar. Staðan á Gaza er aftur á móti töluvert frábrugðin því sem slíkar stofnanir og samtök eiga að venjast, segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, og Margrét Sigurðardóttir Blöndal barnalæknir segir hungursneyð alltaf bitna verst á þeim sem viðkvæmust eru fyrir, svo sem börnum og öldruðum.
Umsjón: Ævar Örn Jósepsson
Tæknimaður: Jón Þór Helgason
Frumflutt
29. júlí 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Spegillinn
Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi, þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.