Áfall þegar stjórnarmaður var settur í gæsluvarðhald, morð á blaðamönnum og sameiningarmál
Formaður Félags talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd segir það hafa verið áfall þegar stjórnarmaður í félaginu var handtekinn nýverið og úrskurðaður í gæsluvaðrhald. Mikilvægt sé þó að gera greinarmun á þeim sem lögreglan vísi burt á landamærunum og síðan hinum sem koma til Íslands í leit að alþjóðlegri vernd.
Kosningu um sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar lýkur á laugardag. 1.850 íbúar yrðu sameinuðu sveitarfélagi en sameiningin yrði um margt óvenjuleg. Sveitarfélögin tilheyra hvort sínu landshlutasamtökum sveitarfélaga og teygja sig yfir tvö lögregluumdæmi. Þau eru þó í sama kjördæminu og sama heilbrigðisumdæminu. Sveitarstjórarnir telja þetta allt mál sem hægt verði að leysa.
67 blaða- og fréttamenn voru drepnir við störf sín frá fyrsta desember í fyrra til nóvemberloka, og yfir 500 eru í fangelsi vegna starfa sinna. Þetta kemur fram í samantekt alþjóðasamtakanna Blaðamenn án landamæra. Ísraelar drápu flesta fréttamenn, þriðja árið í röð, og hvergi eru fleiri fréttamenn í fangelsi en í Kína.
Frumflutt
9. des. 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Spegillinn
Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi, þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.