Valdatafl í Valhöll, Þróun afbrota á Íslandi, staða efnahagsmála í ESB
Útlit er fyrir að slagur um oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík geti orðið býsna harður. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, íhugar alvarlega að gefa kost á sér í leiðtogakjöri flokksins í lok janúar, leiðtogasæti sem Hildur Björnsdóttir, núverandi oddviti, ætlar ekki að gefa svo glatt eftir. Freyr Gígja Gunnarsson fer yfir mögulegan leiðtogaslag sjálfstæðismanna í Borginni.
Mikið hefur verið rætt um ofbeldi á Íslandi undanfarin misseri - og ekki síst hafa verið áberandi áhyggjur af hnífaburði ungmenna og hann talinn vaxandi. Alvarlegustu ofbeldismálin, sérstaklega þegar börn eiga í hlut, vekja mikinn ugg og þau hafa verið óvenjutíð undanfarið. Helgi Gunnlaugsson prófessor hefur rannsakað afbrot á Íslandi um áratugaskeið og skrifar í grein í nýjasta hefti Skírnis að brýnt sé að greina þróunina og vandann sem við er að etja - en bendir á að auknar áhyggjur af afbrotum og ofbeldi séu ekki nýtilkomnar og í opinberum gögnum sé ekki að sjá að brotum fari fjölgandi. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við Helga.
Þjóðarframleiðsla Evrópusambandsríkjanna vex um tæplega eitt og hálft prósent á næsta ári, og búist er við að verðbólga verði rétt ríflega tvö prósent. Þetta kemur fram í nýrri efnahagsspá sem kynnt var í Brussel fyrir nokkrum dögum. Meðaltalið felur hins vegar talsverðan mun milli ríkjanna og þýskur efnahagur verður áfram í kröggum. Björn Malmquist talar frá Brussel.
Frumflutt
26. nóv. 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Spegillinn
Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi, þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.