Í gulum september, sem nú stendur yfir, er lögð áhersla á að auka meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna með kærleika, aðgát og umhyggju að leiðarljósi. Í tilefni af gulum september ætla landssamtökin Geðhjálp að ferðast um landið með geðlestina. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, kom í spjall.
Stór hluti þess afla sem er sóttur í hafið við Ísland er veiddur með botnvörpu, veiðarfærum sem hafa sætt gagnrýni undanfarið, eftir mynd breska fjölmiðlamannsins Davids Attenborough um hafið. Haraldur Arnar Einarsson, fiskifræðingur hjá Hafró og sérfræðingur hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur rannsakað þróun veiðarfæra og áhrif þeirra á náttúruna. Öll veiðarfæri valda skaða, enda hönnuð til að drepa og öll geta þau valdið viðbótarskaða á lífríkinu. Skaðinn af völdum botnvarpa á Íslandi er víða löngu skeður.
Hvenær lærðu Íslendingar að skrifa og jafngildir það að geta párað eða klórað því að vera skrifandi? Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, svaraði þessum spurningum nýlega á Vísindavefnum. Hún ræðir við okkur um skriffærni almennings á öldum áður og mótlæti sem fátækar stúlkur sem vildu læra að draga til stafs mættu - langamma hennar þar á meðal.
Tónlist í þættinum:
Ómar Ragnarsson - Kossar, sætari en vín.
Una Torfadóttir - Það sýnir sig (Studio RUV).
Helga Möller - Ort í sandinn.