Vika einmanaleikans hefst í fyrsta sinn í dag og stendur til 10. október. Það er Kvenfélagasamband Íslands sem stendur að baki Vikunni sem er ætlað að vekja samfélagið til umhugsunar um vaxandi einmanaleika. Í samfélagi sem einkennist af hraða og tækni er brýnt að vekja athygli á mikilvægi mannlegra tengsla og samkenndar segja aðstandendur vikunnar. Þær Jenný Jóakimsdóttir og Eva Björk Harðardóttir komu í Síðdegisútvarpið.
Árlegur urriðadans verður á morgun á Þingvöllum en Jóhannes Sturlaugsson hjá Laxfiskum mun fræða gesti um urriðann í Þingvallavatni, lífshætti hans og almennan hag. Gestir fá tækifæri til að sjá urriðann í návígi og fræðast um þennan stórhöfðingja Þingvallavatns sem á hverju hausti gengur upp Öxará til hrygningar. Jóhannes varr á línunni hjá okkur.
Iceland Eclipse, ný fjögurra daga hátíð sem verður haldin á Hellissandi 12.–15. ágúst 2026. Hún byrjar á almyrkva sólar og svo taka við tónleikar, fyrirlestrar og allskonar húllum hæ – stór nöfn eins og Meduza, GusGus og Emilíana Torrini koma fram og svo geimfarar og vísindafólk frá NASA. Jón Bjarni Steinsson, einn skipuleggjenda, mætti í Síðdegisútvarpið.
Knattspyrnuliðið Mjällby er hársbreidd frá því að verða sænskur meistari í fyrsta skipti í sögu félagsins. Liðið sem féll næstum því í fjórðu deild fyrir tæpum áratug spilar heimaleiki sína í litlu sjávarþorpi við Eystrasaltið. Liðið spilar heimaleiki sína í litlu sjávarþorpi, Hällevik, sem telur tæplega 1000 íbúa. Mjällby er nú með 11 stiga forystu þegar 5 leikir eru eftir af tímabilinu. Helga Margrét Höskuldsdóttir mætti í Síðdegisútvarpið og sagði okkur meira af þessu Öskubuskuævintýri.
Kristín Þóra Haraldsdóttir, leikkona sýnir einleikinn Á rauðu ljósi í hundraðasta sinn næstkomandi laugardagskvöld, þann. 4. október. Fyrstu hugmyndir hennar voru að sýna verkið 1-2 sinnum til að brúa ákveðið bil þegar tökum sjónvarpsseríu var frestað. Nú, 99 sýningum seinna, færir Kristín Þóra sig upp á Stóra sviðið og þar er þegar orðið uppselt á næstu fimm og búið að bæta tveimur aukasýningum við. Kristín Þóra kom í spjall.
Helena Guðjónsdóttir, tónlistarkona og áhugakona um þýska bjórmenningu, hefur meiri áhuga á októberfest en við flest. Hún leikur tónlistina, klæðir sig í búningana og smakkar ölið. Fer iðulega til Þýskalands á þessar hátíðir en það eru víst líka sumarfest í boði. Síðdegisútvarpið heyrði af þó nokkrum októberfestum hjá hópum og fyrirtækjum um helgina og okkur langaði að fræðast meira um októberfest. Helena mætti til okkar og segir okkur nánar hvernig skal haga sér og hvernig hægt er að koma skilaboðum áleiðis með klæðnaði.