Emily Lethbridge er í stjórn félags sem heitir Vigdís - Vinir gæludýra á Íslandi en félagið stendur fyrir verkefni sem býður upp á lestrarstundir með hundum. Við höfum fengið af því fregnir að nú vanti sjálfboðaliða í félagið og því mætti Emily til okkar.
Magnea Marinósdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur var á línunni hjá okkur. Hamas og Ísrael virðast aldrei hafa verið nær því að binda enda á stríðið sem geisað hefur á Gaza-ströndinni síðustu tvö ár en Donald Trump Bandaríkjaforseti tilfkynnti að fyrsta áfanga í friðarviðræðunum hefði verið náð seint í gærkvöld.
Heilbrigðisráðherra hefur birt drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda sem ætlað er að skerpa á skyldum Sjúkratrygginga Íslands og tryggja að ákvarðanir séu teknar á grundvelli gagnreyndrar meðferðar, faglegs mats og efnahagslegs sjónarmiðs. Samkvæmt orðum Ragnars Freys Ingvarssonar, formanns Læknafélags Reykjavíkur, gætu breytingarnar þó raskað því samstarfi sem læknar og stjórnvöld hafa átt hingað til. Ragnar Freyr kom til okkar og útskýrði betur hvað þetta þýðir á mannamáli.
Á morgun fer fram gífurlega mikilvægur fótboltaleikur á Laugardalsvelli þegar Íslenska karlalandsliðið tekur á móti því Úkraínska í undankeppni HM.
Uppselt er á leikinn rétt eins og gegn Frökkum á mánudaginn.
Guðmundur Benediktsson fótboltafræðingur er mætti í Síðdegisútvarpið
Hvaða áhrif hefur dagsbirta – eða skortur hennar á líðan okkar? Þegar við kaupum nýjar íbúðir er mikilvægt að spyrja: Er hugsað fyrir nægri dagsbirtu í húsinu, og hvernig getum við sannreynt það? Bergþóra Góa Kvaran, arkitekt og sérfræðingur í Svansvottuðum byggingum kom til okkar í dag og fræddi okkur um það allra mikilvægasta.
RÚV sýnir heimildarmyndina “Acting Normal with CVI” eða “Fyrir allra augum” í kvöld á alþjóða sjónverndardeginum. Þetta er eina heimildarmyndin í heiminum í fullri lengd um heilatengda sjónskerðingu. Söguhetja myndarinnar er Dagbjört Andrésdóttir og hún kom til okkar ásamt Elínu Sigurðardóttur sem stutt hefur dyggilega við bakið á Dagbjörtu.