Menningarnótt, einn stærsti viðburður sumarsins er framundan. Hvað er að gerast, hvaða götum verður lokað, og hvar getur maður lagt bílnum? Eða er kannski bara best að taka strætó? Guðmundur Birgir Halldórsson viðburðarstjóri menningarnætur kom til okkar.
Við höldum áfram að taka stöðuna á landvörðum hér og þar, og í dag slógum við á þráðinn til Björns Leós Brynjarssonar í Nýjadal
Ný útgáfa af Austurstræti, hinu goðsagnakennda lagi Ladda, hefur litið dagsins ljós. Lagið er í útsetningu Más Gunnarssonar og flutt af sinfóníuhljómsveit, hvorki meira né minna. Þeir Már og Laddi komu til okkar.
Fyrsta leikár nýráðins Borgarleikhússtjóra er að fara af stað. Egill Heiðar Anton Pálsson er hokinn af reynslu í leikhúsheiminum, og er nýfluttur heim eftir að hafa starfað á Norðurlöndunum, Þýskalandi og Ástralíu um langt árabil. Hvernig leggst nýja starfið í hann og hvað verður á fjölunum í vetur? Egill kíkti til okkar.
Og svo heyrðum við af óvissuferð í Borgarbókasafninu, þar sem kennir ýmissa grasa á morgun. Hólmfríður Ólafsdóttir sagði okkur hvað er um að vera.
Menningarnótt verður sett formlega í Þjóðleikhúsinu 12.30 á morgun. Leikhúsið fagnar 75 ára afmæli í ár, og slær því upp heljarinnar afmælisveislu sem stendur fram á kvöld. Bastian bæjarfógeti opnar hátíðina ásamt borgarstjóra Reykjavíkur, og var á línunni hjá okkur í lok þáttar.