Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti fyrr í dag að hún hygðist halda stýrivöxtum óbreyttum í 7,5 %. Nefndin segir stefnuna virka og að hún hafi áhrif í rétta átt en það taki tíma að ná verðbólgunni niður. Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins var á línunni hjá okkur, og var alls ekki sammála nefndinni.
Pawel Bartoszek fyrrum borgarfulltrúi og nú þingmaður skrifaði færslu á Facebook þar sem hann veltir fyrir sér bílastæðamálum í borginni. Og þar beinir hann sjónum sínum að bílastæðakjöllurum versus bílastæðahúsum, kostum þess og göllum. Í ljósi þess að bílastæðamál hafa verið hugleikin í vikunni þá slógum við á þráðinn til Pawels og ræddum þessi mál við hann.
Nemendum í grunnskólum Kópavogsbæjar verður skylt að taka samræmt námspróf frá og með næsta vori. Aðgerðin er ein af sextán umbótatillögum sem svara eiga ákalli kennara, nemenda og foreldra í sveitarfélaginu um nánari upplýsingar um hvar nemendurnir standi í námi. Við heyrðum í Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra Kópavogs.
Marius Borg Hoiby, 28 ára sonur norsku krónprinsessunnar Mette Marit hefur verið ákærður fyrir mörg afbrot, þar á meðal fjórar nauðganir, kynferðisbrot og líkamsmeiðingar í kjölfar ítarlegrar rannsóknar lögreglunnar í Osló. Þá hefur hann verið sakaður um hlaðborð annarra afbrota, þar á meðal skemmdarverk, hótanir, að brjóta nálgunarbann, umferðalagabrot og að móðga lögreglumann. Atli Steinn Guðmundsson blaðamaður Morgunblaðsins í Noregi sagði okkur nánar frá þessu.
Minningarsjóður Lofts Gunnarssonar hefur frá stofnun hans árið 2012 verið áberandi í umræðunni um málefni jaðarsettra einstaklinga og er í nánu samtali og samstarfi við velferðarsvið Reykjavíkurborgar, VOR-Teymið og ýmis úrræði fyrir heimilislausa svo sem gistiskýlin og Konukot. Og nú hafa nokkrir vaskir menn ákveðið að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn og safna pening sem verður eyrnamerktur Konukoti. Meðal þeirra sem hlaupa eru Gunni Hilmars, Krummi Björgvins og Pétur Ben tónlistarmaður svo einhverjir séu nefndir og þeir kíktu til okkar í Síðdegisútvarpið.
Það er líf og fjör hjá pysjubjörgunarfólki í Eyjum núna, en nærri fjögurhundruð pysjur hafa verið skráðar hjá pysjueftirlitinu. Við slógum á þráðinn til Harðar Baldvinssonar framkvæmdastjóra þekkingarseturs Vestmannaeyja.